Hrein eign lífeyrissjóðanna nam 2.078 milljörðum króna í lok nóvember í fyrra, samkvæmt nýjustu upplýsingum Seðlabankans. Hrein eign lífeyrissjóðanna hækkaði um 23 milljarða króna, 1,1%, á milli mánaða og hafði í nóvemberlok aldrei verið hærri.

Af eignum lífeyrissjóðanna hækkuðu innlendar verðbréfaeignir þeirra mest, um 17 milljarða króna. Verðmæti erlendra verðbréfaeigna lífeyrissjóðanna hækkaði um 8 milljarða á sama tíma. Innlendar eignir lífeyrissjóðanna námu í lok mánaðarins 1.498 milljörðum króna en erlend eign 464 milljörðum króna.

Í nóvember árið 2010 nam hrein eign lífeyrissjóðanna 1.893 milljörðum króna.

Eignir lífeyrissjóðanna námu 1.771 milljörðum króna í lok september 2008. Í október fóru bankarnir á hliðina með tilheyrandi áhrifum á lífeyrissjóðina. Í lok október höfðu eignir lífeyrissjóðanna upp á 217 milljarða brunnið upp og eignasafnið lækkað um rúm 12%.

Síðan þetta var hefur verðmæti þess aukist um tæp 34%.

Lífeyrissjóðir
Lífeyrissjóðir