Hrein eign lífeyrissjóða nam 2.444 milljörðum króna í lok febrúar síðastliðnum. Þetta er rúmlega níu milljarða króna hækkun á milli mánaða. Hækkunin nemur 0,4%, samkvæmt upplýsingum Seðlabankans. Hrein eign lífeyrissjóðanna hefur aldrei verið meiri. Til samanburðar áttu lífeyrissjóðirnir 2.178 milljarða króna í febrúar í fyrra. Í lok febrúar árið 2009 sá mjög á lífeyrissjóðunum eftir bankahrunið. Hrein eign þeirra nam þá 1.541 milljarði króna. Eignin hefur aukist um næstum 60% síðan þá.

Fram kemur í gögnum bankans að eign samtryggingardeilda lífeyrissjóða nam 2.202 milljörðum króna í lok mánaðarins á móti 242 milljörðum króna í séreignardeilda.

Innlend verðbréfaeign lífeyrissjóða nam 1.748 milljörðum króna í lok mánaðarins og hækkaði hún um tæpa 17 milljarða króna. Seðlabankinn bendir á að hækkunin skýrist af rúmlega 8 milljarða króna hækkun á eign lífeyrissjóðanna í innlendum skuldabréfum og tæplega 8 milljarða króna hækkun á eign þeirra í innlendum hlutabréfum. Þá nam erlend verðbréfaeign lífeyrissjóða 557 milljörðum króna í lok febrúar og lækkaði hún um tæpa 7 milljarða króna frá í janúar. Lækkunin jafngildir 1,2%. Lækkun erlendrar verðbréfaeigna skýrist aðallega af 6 milljarða króna lækkun á eign lífeyrissjóða í  erlendum hlutdeildarskírteinum, samkvæmt upplýsingum Seðlabankans.