*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 28. nóvember 2011 15:50

Eignir og skuldir bankanna hækka

Eignir bankanna hækkuðu um 25 milljarða milli mánaða. Skuldirnar hækkuðu um 22 milljarða.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Heildareignir innlánsstofnana námu 2.876 milljörðum í lok síðasta mánðar og hækkuðu um 25 milljarða frá fyrri mánuði, samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands. Innlendar eignir námu 2.542 milljörðum og höfðu hækkað um tæpa 2 milljarða frá því í september. Erlendar eignir námu 334 milljörðum og hækkuðu um 23 milljarða. 

Skuldir innlánsstofnana námu 2.400 milljörðum í lok október. Þær hækkuðu um 22 milljarða frá september. Þar af voru innlendar skuldir 2.241 milljarður en erlendar skuldir 159 milljarðar. Eigið fé bankanna í lok október var 476 milljarðar króna.

Í hagtölum Seðlabanka Íslands er tekið fram að útlán Arion banka, Íslandsbanka og NBI eru í tölunum metin á kaupvirði, það er því virði sem bankarnir keyptu útlánasafnið á af fyrirrennurum sínum. „Lánasöfnin eru endurmetin reglulega sem getur leitt til hækkunar eða lækkunar á virði einstakra lána. Breytingar á útlánasafni þessara aðila geta því stafað af endurmati á virði lána eða af raunverulegum lánahreyfingum. Seðlabankinn hefur nú samræmt gögn um útlán og niðurfærslur bankanna þriggja sem urðu til í október 2008. Þessi samræming leiðir til þess að höfuðstóll útlána þessara þriggja aðila hækkar, frá fyrri birtingu gagnanna, ásamt framlagi á niðurfærslureikning þeirra,“ segir Seðlabankinn.

Hagtölur Seðlabanka Íslands.