Rekstur Sameinaða lífeyrissjóðsins hefur gengið mjög vel undanfarin ár og er staða hans sterk þrátt fyrir óhagstæða þróun hlutabréfamarkaða á síðasta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sameinaða lífeyrissjóðnum.

Eignir sjóðsins við áramót námu 96,6 milljörðum króna og höfðu hækkað um 8,2 milljarða milli ára eða um 9,3%. Þannig voru eignir umfram áfallnar skuldbindingar 7.119 milljónir króna eða 8,0% og eignir umfram heildarskuldbindingar voru 2,8% í lok árs 2007. Á síðastliðnu ári var nafnávöxtun eigna sjóðsins 5,9% sem er jafnt hækkun vísitölu neysluverðs á árinu. Meðal raunávöxtun sl. 5 ára er 7,5%.

„Inneignir í séreignasparnaði námu alls 3,8 milljörðum króna í árslok og var ávöxtun einstakra leiða í takt við þróun markaða á árinu og komu þær leiðir sem höfðu meira vægi skuldabréfa almennt betur út en þær sem vægi hlutabréfa var hátt. Tæplega 80% eigna í séreignarsparnaði sjóðsins eru í innlendum skuldabréfum," segir í tilkynningunni.