Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem rekinn er af eignastýringu Kaupþings, hefur lokið endurmati eigna í samráði við löggilta endurskoðendur.

Samkvæmt bráðabirgðaútreikningum þarf ekki að skerða réttindi eða lífeyri sjóðfélaga í samtryggingahluta sjóðsins en sjóðfélagar eru rúmlega 40 þúsund.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjóðnum.

„Fjármálakreppan hefur haft áhrif á lífeyrissjóðinn en aðgerðir í eignastýringu Kaupþings, sem er rekstraraðili sjóðsins, hafa á undanförnum tveimur árum miðað að því að minnka marksvisst áhættu,“ segir í tilkynningunni.

„Með auknu vægi ríkisskuldabréfa og kerfisbundinni sölu á hlutabréfum hefur tekist að draga verulega úr áhrifum fjármálakreppunnar á eignasafn Frjálsa lífeyrissjóðsins.“

Þá kemur fram í tilkynningunni að vegna fjármálakreppunnar hafa allar eignir Frjálsa lífeyrissjóðsins verið metnar upp á nýtt.

„Ljóst er að kreppan hefur haft nokkur áhrif til lækkunar á virði eigna [...] Við endurmatið er varúðar gætt og vonir standa til að niðurfærsla á eignum verði minni er reiknað er með,“ segir í tilkynningunni.

Nafnávöxtun fjárfestingarleiðanna fyrstu ellefu mánuði ársins, eftir að búið er að taka tillit til niðurfærslu, er eftirfarandi:    Ávöxtun                         fyrstu 11 mánuði ársins            Niðurfærsla eigna Frjálsi 1                                -2,2%                                                -7,3% Frjálsi 2                              +12,7%                                               -6,3% Frjálsi 3                               +23,1%                                              -2,1% Frjálsi Áhætta                        -3,6%                                              -8,3%

Frjálsi lífeyrissjóðurinn heldur aukaársfund þriðjudaginn 16. desember kl. 17:15 í höfuðstöðvum Kaupþings. Lagðar verða fram tillögur um breytingar á samþykktum sjóðsins og veittar upplýsingar um rekstur og ávöxtun sjóðsins á árinu.