Eignir skilanefndar Glitnis hafa rýrnað um 200 milljarða króna frá árslokum 2008.

Þetta kemur fram í uppgjöri skilanefndarinnar fyrir árið 2008 sem var birt 16. apríl síðastliðinn.

Þar segir að heildareignir sjóðsins hafi verið 1.008 milljarðar króna í árslok 2008 en 808 milljarðar króna um síðustu áramót.

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, segir þessa rýrnun eiga sér eðlilegar skýringar. Upphaflega hafi Íslandsbanki, sem stofnaður var á grunni Glitnis, átt að gera upp við skilanefndina með skuldabréfi. Virði þess samkvæmt mati FME frá 14. nóvember 2008 var 422 milljarðar króna.

„Síðar samdist um að skilanefndin eignaðist 95% hlut í Íslandsbanka í staðinn fyrir þetta skuldabréf. Sá hluti er nú 104,5 milljarðar króna. Þessi eignarhluti lækkar því um tæpa 320 milljarða króna.“

Árni segir að aðrar eignir bankans utan eignarhlutarins í Íslandsbanka hafi hækkað um 100 milljarða króna.