Landsbréf, dótturfélag Landsbankans, er með 27 milljörðum króna minni eignir í stýringu í dag en fyrir hálfu ári síðan. Er um að ræða lækkun um 15% á sex mánuðum, eða úr 184 milljörðum í upphafi ársins niður í 157 milljarða í lok júnímánaðar að því er Vísir greinir frá. Heildarfjárhæð eignanna var hins vegar 129 milljarðar í lok ársins 2015.

Framkvæmdastjóri Landsbréfa, Helgi Þór Arason, segir skýringuna að langmestu leyti vera miklar sveiflur í stærð lausafjársjóða sem eru í stýringu félagsins. Segir Helgi að auknar sveiflur komi til af stærra hlutfalli lausafjársjóða, en hann segir þær ekki hafa nein stórkostleg áhrif á afkomu Landsbréfa.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær nam hagnaður Landsbréfa 556 milljónum króna á fyrri hluta ársins, sem er aukning um 91% á milli ára. Rekstrartekjurnar jukust um 37% og námu 1.135 milljónum.