Heildareignir tryggingarfélaganna námu 137,5 milljörðum króna í lok júní sl. og lækkuðu um 179 milljónir króna milli mánaða.

Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans.

Útlán og markaðsverðbréf námu 81,3 milljörðum króna og lækkuðu um 5,5 milljarða. Seðlabankinn segist það skýrast að mestu af lækkun verðtryggðra markaðsskuldabréfa um 2,6 milljarða króna, hlutdeildarskírteina um 2,1 milljarða og útlána um 682 milljónir króna.

Handbært fé nam 13,7 milljörðum króna og hækkaði um 1,2 milljarða. Kröfur á lánastofnanir námu 3,3 milljörðum króna og hækkuðu um 2,1 milljarða í júní. Hækkun allra annarra eigna tryggingarfélaga nam 2,1 milljarði króna.

Skuldir lækkuðu um 302 milljónir króna og námu 83,1 milljörðum í lok mánaðarins. Eigið fé jókst um 123 milljónir króna og nam 54,4 milljörðum króna í lok júní.