Heildareignir tryggingafélaganna námu 153,7 milljörðum króna í lok desember og lækkuðu um 352 milljónir frá mánuðinum á undan, að því er kemur fram í upplýsingum frá Seðlabankanum. Handbært fé nam 10,3 milljörðum króna og hækkaði um 329 milljónir í desember. Skuldir tryggingafélaga námu 84 milljörðum í lok desember og lækkuðu um 1,4 milljarða í mánuðinum. Eigið fé tryggingafélaganna nam 69,6 milljörðum í lok desember og hækkaði um 1 milljarð króna í desember.

Þegar horft er á árið 2012 í heild sést að eignir tryggingafélaganna hækkuðu um 5,7%, eigið fé um 7,1% og skuldir um 4,5%. Eiginfjárstaða tryggingafélaganna styrktist því á síðasta ári. Handbært fé lækkaði hins vegar um ein 10,4%. Liðurinn „kröfur á lánastofnanir“ hækkaði hlutfallslega mest á árinu, eða um 145,4%, en hann er hins vegar ekki stór í efnahagsreikningi tryggingafélaga, eða um 4,4 milljarðar króna í árslok 2012.