Eignir alls lífeyriskerfisins voru í árslok 2016 um 3.726 milljarðar króna, eða 154% af vergri landsframleiðslu (VLF). Til samanburðar voru efnahagsreikningar þriggja stærstu viðskiptabankanna um 3.200 milljarðar króna og lánamarkaðarins í heild um 4.250 milljarðar króna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í fréttatilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu.

Eignir lífeyriskerfisins, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu lækkuðu um þrjú prósentustig frá fyrra ári vegna lægri ávöxtunar sjóðanna og aukinnar landsframleiðslu. Eignir samtryggingadeilda lífeyrissjóða jukust um nærri 8% og voru 3.194 milljarðar króna í árslok 2016. Séreignasparnaður í vörslu lífeyrissjóðanna nam 340 milljörðum króna og 192 milljörðum króna hjá öðrum vörsluaðilum séreignasparnaðar. Aukning frá fyrra ári nemur 6% hjá þeim fyrrnefndu og 8% hjá þeim síðarnefndu.