„Ég held að það sé ekkert annað í stöðunni en að taka þetta lán frá Rússum ef það býðst okkur. Sérstaklega úr því að Bandaríkjamenn gáfu okkur fingurinn og vildu ekkert fyrir okkur gera," sagði Jafet Ólafsson fjárfestir og bankamaður þegar náðist í hann suður í Búkarest höfuðborg Rúmeníu.

Jafet er þar staddur vegna fjárfestingaverkefna en félag, sem hann stendur að, er að ljúka við 130 íbúðir sem hann sagði að yrðu afhenntar innan nokkra vikna og væru flestar seldar.

Jafet sagði að Rúmenar hefðu fylgst með af miklum áhuga umræðu um lán Rússa. Það kæmi meðal annars til af því að segja má að Keflavíkurherstöðin hafi verið flutt til Rúmeníu á sínum tíma. Þar er Nató nú  með svipaðan viðbúnað og sambandið var með í Keflavík.

„Rúmenar velta því mikið fyrir sér hvort Rússar vilja fá lendingaraðstöðu í Keflavík," sagði Jafet.

Jafet sagði að Rúmenum hefði gengið ágætlega að eiga við sín efnahagsmál enda hefði seðlabanki Rúmeníu verið fær um að bakka upp bæði banka landsins og gjaldeyri.

Jafet sagði að nokkuð hefði verið um að menn hefðu verið að taka stöðu gegn gjaldmiðli landsins en rúmenski seðlabankinn hefði getað staðið það af sér.

„Annars er mikið af Rúmenum að flytja heim í kjölfar erfiðleika á Spáni og Ítalíu þannig að menn gera ráð fyrir auknu atvinnuleysi hér."