Rækjuvinnslan Kampi á Ísafirði þurfti að draga verulega úr allri starfsemi þegar covid-pestin skall á. Nú er samt verið að gera verksmiðjuna klára fyrir næstu törn og horft fram á betri tíma.

Albert Haraldsson, rekstrarstjóri rækjuverksmiðjunnar Kampa á Ísafirði, segir að langstærsti hluti af framleiðslu fyrirtækisins fari til Bretlands og til dæmis sé töluvert af henni notað í rækjusamlokur, enda eru rækjusamlokur meðal allra vinsælustu skyndibita þar í landi.

„Bretar hafa verið með allt lokað hjá sér í þrjá mánuði, til dæmis pöbba og veitingahús, og fótboltinn stoppaði líka og er nú spilaður án áhorfenda. Rækjusamlokur eru seldar víða í Bretlandi en sala á flestum stöðum datt mikið niður. Það mátti til dæmis ekki fara inn á bensínstöðvarnar en það hefur samt verið þannig á bensínstöðvum að fólk fer í sjálfsala eða í lúgu, og þannig selst töluvert. Þetta eru jú 70 milljón manns sem þarna búa og á hverjum degi taka einhverjir samlokur með sér. Þetta er fljótt að fara þótt það hafi hægst á þessu,“ segir Albert spurður um það hvernig fyrirtækinu hafi reitt af undanfarna mánuði á tímum covid-faraldursins.

„Fyrir okkur var þetta ástand í Bretlandi töluvert mikið högg í sölu. Afurðaverð hefur farið lækkandi en á móti hefur hráefnisverð lækkað líka,“ segir Albert.

„Við vorum með svona rúmlega helmings skerðingu á framleiðslu þessa tæpu þrjá mánuði.“

Skert starfshlutfall

Það þurfti því að draga saman í starfseminni. Ekki var þó farin sú leið að segja upp fólki heldur voru starfsmenn settir á skert starfshlutfall tímabundið.

„Við fórum fyrst í 40 prósent um miðjan apríl og unnum þannig í apríl og fram í maí og vorum síðan með 50 prósent vinnslu út júní fram að sumarstoppi. En núna erum við að fara á fullt aftur í næstu viku.“

Ákveðið var að loka fyrirtækinu og hafa sumarstopp í tvær vikur núna í júlí, sumarfrí færð til og tíminn notaður til að gera allt klárt fyrir næstu törn.

„Við höfum verið að nýta tímann núna í að gera fyrirtækið snyrtilegt og fínt eins og við viljum hafa það. Við erum bara að gera klárt, skipta um allt í pillunarvélum og hreinsivélum og byrjum svo á mánudaginn á fullum krafti.“

Bjartari horfur

Albert segir fyrirtækið vera með trausta samninga við birgja í Bretlandi og útlitið sé því ágætt hvað sölur varðar þrátt fyrir þessa tímabundnu erfiðleika.

„Eins og venjulega erum við búnir að stilla saman hráefnisbirgðir og væntanleg hráefniskaup við áætlanir okkar í afurðasölu. Við pössuðum okkur á því að færa framleiðslugetuna niður í það sem við höfum getað losað þegar það hægðist á framleiðslunni, þannig að við vorum ekki að safna upp afurðabirgðum, því allir í rækju vita að ef það safnast upp miklar birgðir þá þrýstir það bara á verðlækkanir.“

Kampi rekur á Ísafirði stærstu og fullkomnustu rækjuvinnslu landsins og hefur á síðustu árum fjárfest í búnaði sem tryggir að rækjan fer að mestu í gegnum allt vinnsluferlið án þess að mannshöndin komi þar nærri.