Bílamarkaður á Íslandi hafi tekið við sér á síðustu árum, fyrst með aukinni sölu til bílaleiga en síðar einnig með innkomu almennings. Hún líkir leitinni að arftaka sprengihreyfilsins við valið milli VHS og Betamax og segir Tesla nánast hafa hlegið að því hvað íslenskur bílamarkaður er lítill.

Erna Gísladóttir keypti B&L ásamt eiginmanni sínum, Jóni Þóri Gunnarssyni, árið 2011. Á sama tíma keyptu þau bílaumboðið Ingvar Helgason og runnu umboðin saman í BL. Erna er í raun þriðja kynslóð stjórnenda B&L, en afi Ernu stofnaði fyrirtækið árið 1954. Hún situr auk þess í stjórnum Sjóvá og Haga. Erna man tímana tvenna hjá BL, en hún gegndi starfi framkvæmdastjóra þess á árunum 1991 til 2008. Bílasala hafi tekið kipp undanfarin ár eftir langa ládeyðu.

„Það er að verða ofsaleg endurnýjun. Við erum ekki komin í það sem við upplifðum á síðasta áratug, þegar fólk var að bæta við sig öðrum eða þriðja bílnum. Fólk er bara skynsamara og á frekar fyrir bílunum. Við finnum fyrir því að það er miklu minna af lánum og raunhæfari lánamöguleikar. Fólk kannski setur gamla bílinn upp í og á þannig helminginn í bílnum og tekur hinn helminginn að láni eða þess háttar,“ segir Erna.

Til samanburðar var algengt á árunum fyrir hrun að fólk væri með bíla á 90% eða jafnvel 100% lánum. „Það var ákveðinn hópur sem tók lán í svissneskum frönkum og japönskum jenum sem fór náttúrulega ekki vel eins og allir þekkja.“

Tölur um nýskráningar fólksbíla sýna að nýskráningar virðast haldast nokkuð í hendur við hagvaxtartölur. Bílasala tók til dæmis kipp á skattlausa árinu en dýfur í upphafi tíunda áratugarins, þegar netbólan sprakk og í kjölfar bankahrunsins. Þannig að bílar eru kannski tákn um það að fólk er öruggt og horfir jákvæðum augum á framtíðina?

„Já. Til að byrja með fór fólk kannski í utanlandsferð en sá ekki alveg fram á að hafa efni á afborgunum og öðru til langtíma, sem það hefur í dag, eða er búið að laga fullt af öðrum hlutum. Þú endurnýjar kannski fyrst sjónvarpið og uppþvottavélina og lagar til í kringum þig en ferð svo í þessar stóru fjárfestingar, sem eru bæði húsnæði og bílar.“

Bílaleigur fyrirferðarmiklar á liðnum árum

Erna segir að nýskráningar bíla einstaklinga hafi tekið hressilega við sér í fyrra og það sem af er þessu ári. Þær hafa aukist undanfarin ár en eru fyrst núna að nálgast þær hæðir sem þær voru í nokkrum árum fyrir hrun. Bílaleigur hafi dregið vagninn en útlit er fyrir að nýskráningar þeirra standi í stað milli ára.

„Það er auðvitað endurspeglun á því sem við heyrum frá ferðageiranum, fólk dvelur skemur en áður og leigir bíla skemur þannig að þær þurfa ekki alveg eins marga bíla. Við sjáum allavega almenning taka vel við sér en þú sérð að við erum ekki að nálgast þessi stóru ár fyrir hrun. En það má ekki gleyma að markaðurinn hefur breyst. Hér áður voru bílaleigurnar svo litlar og bílarnir jafnvel keyrðir meira. Núna kemur stór hluti bílaleigubíla aftur á markaðinn eftir átján mánuði, sem gerir það að verkum að ákveðinn kaupendahópur er jafnvel farinn að kaupa þá bíla frekar en nýja. Svo sjáum við líka viðbótarbílaleigur. Bílarnir fara kannski í tveimur eða þremur skrefum niður á við. Þú ert með alþjóðlegu leigurnar, síðan ertu með millistórar íslenskar keðjur eins og til dæmis Lagoon,“ og loks þriðja flokkinn eins og Cheap Jeep.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.