Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir erfitt að gefa út áform um mikinn ytri vöxt sem fælist í stórum yfirtökum. "Við erum einkum að horfa í kringum okkur hvað varðar litlar yfirtökur í því augnamiði að styrkja sölunetið. Eftir því sem fjárhagur okkar styrkist þá höfum við meira fjármagn á milli handanna," sagði hann eftir að félagið birti hálfsársuppgjör sitt í síðustu viku. "Við viljum komast nær viðskiptavininum og það höfum við verið að gera með litlum uppgripum."

Talið er líklegt að félagið vilji styrkja sölunet sitt frekar innan stuðningsvöruhlutans.

Greiða niður skuldir

Össur hefur greitt skuldir hraðar niður en það sem kveðið er á um í lánasamningum. Hreinar vaxtaberandi skuldir félagsins hafa lækkað um 82 milljónir Bandaríkjadala á einu ári, sem er tæp 40% lækkun. Hlutfall hreinna vaxtaberandi skulda á móti EBITDA nam 1,8 í lok júní en var 2,3 um áramótin. Jón segir að með því að fara undir hlutfallið tvo lækki vaxtakjör Össurar. Á sama tíma átti fyrirtækið 65 milljónir Bandaríkjadala í handbæru fé. "Við eigum mikið reiðufé og það er í rauninni of mikið. Eftir reynslu síðusta ára finnst okkur það borga sig um sinn að vera íhaldssöm í okkar fjárreiðum." Þetta hafi líka þau áhrif að arðsemi eiginfjár lækki.

Nánar í Viðskiptablaðinu.