Færeyski bankinn Eik Banki hefur lækkað um 61% frá áramótum í Kauphöll Íslands. Í Hálffimm fréttum Kaupþings er fjallað um gengi þeirra færeysku félaga sem skráð eru í Kauphöll Íslands.

Lækkun Eik Banka verður að hluta til rakin til stöðu Roskilde Bank í Danmörku, þar sem hrun hans hefur haft neikvæð áhrif á fjármálastofnanir Danmerkur, en Eik er einnig skráður í Kaupmannahöfn.

„Á það er einnig að benda að Eik er stór hluthafi í SPRON með nærri 8% hlut og hefur sá eignarhlutur rýrnað mjög á árinu samfara um 66% lækkun á gengi sparisjóðsins,“ segir í Hálffimm fréttum.

Eik bankinn hefur nú fallið úr fyrsta sæti lista yfir verðmætustu færeysku félögin sem skráð eru í Kauphöll Íslands, en olíuleitarfélagið Atlantic Petroleum hefur skotist upp í toppsætið. Eik banki er nú metinn á um 27,3 milljarða íslenskra króna á meðan Atlantic Petroleum er metið á um 28,1 milljarð króna.

Þess má þó geta að verðmæti Eik bankans hefur dregist saman á meðan bréf Atlantic Petroleum hækkuðu um 258% í Kauphöllinni í fyrra.