Í dag verður Eik Banki frumskráður í OMX Nordic Exchange Iceland og um leið í OMX Nordic Exchange Copenhagen. Eik er fimmtugasta og sjöunda félagið sem slæst í hóp félaga hjá Nordic Exchange það sem af er árinu segir í tilkynningu OMX Nordic Exchange Iceland.

Eik Banki P/F, sem er móðurfélag Eik Group og stærsti banki í Færeyjum, var stofnaður árið 1832. Grundvallarstefna Eik Banki P/F er að auka starfsemi sína á alþjóðavettvangi og útvíkka starfsemina í þeim tilgangi að dreifa áhættu og auka hagnað. Helmingur af tekjum bankans árið 2006 var upprunninn utan Færeyja.

Innan Eik Group starfa 17 útibú í Færeyjum og eitt dótturfélag í Kaupmannahöfn í fullri eigu, Eik Bank Danmark A/S, og Inni P/F, færeysk fasteignasala í fullri eigu. Auk þess vinnur Eik Bank Danmark nú að kaupum á SkandiaBanken AB í Danmörku sem er stærsti netbankinn þar í landi. Því til viðbótar á Eik Group 9,94 % hlutafjár í SPRON og 29 % hlutafjár í danska fyrirtækinu Investea. Meginþættir í starfsemi Eik Banki P/F eru viðskiptabankaþjónusta, fyrirtækjaráðgjöf, verðbréfaviðskipti, eignastýring, lífeyrissparnaður og fjárfestingarbankastarfsemi.

?Það er okkur sönn ánægja að bjóða Eik Banka velkominn í fjármálageira Nordic Exchange. Eik Banki er áhugaverð viðbót við geirann sem fyrir er afar sterkur á Íslandi. Íslenski markaðurinn hefur verið góð uppspretta fjármagns fyrir ört vaxandi banka og Eik Banki mun án efa hagnast á þessu mikilvæga skrefi í þróun sinni,? segir Þórður Friðjónsson, forstjóri OMX Nordic Exchange Iceland í tilkynningunni.

?Eik Banki er þegar aðili að OMX Nordic Exchange og í kjölfar örrar þróunar hjá félaginu hefur það kosið að vera skráð bæði á Íslandi og í Kaupmannahöfn. Þar kemur fram jákvæð þróun markaðarins en einnig viðurkenning á skipulagi og tilvist Nordic Exchange,? segir Jan Ovesen, forstjóri OMX Nordic Exchange Copenhagen.


?Eik Banki er nýjasta og, vegna 175 ára sögu sinnar, líklega einnig elsta skráða félag í kauphöllum OMX á Íslandi og í Danmörku. Þegar Eik Banki var breytt úr sparisjóði í hlutafélag árið 2002 kom fram í samþykktum þess að stjórn félagsins gæti skráð hlutabréf félagsins. Skráningin hefur því verið í bígerð í langan tíma og það er trú mín að hún muni verða til hagsbóta, jafnt fyrir Eik Banki, alla hluthafa hans og færeyskt samfélag í heild,? segir Marner Jacobsen, forstjóri Eik Banki.


Eik Banki er meðalstórt (Mid Cap) félag og mun tilheyra MidCap+ vísitölu Nordic Exchange Copenhagen. Viðskiptalota hlutabréfa í Eik Banki, sem hefur auðkennið FO-EIK á Íslandi og FO-EIK CSE í Kaupmannahöfn, er 10. Félagið tilheyrir fjármálageiranum.