Eik Banki tapaði 69,2 milljónum danskra króna, jafnvirði tæpra 1,7 milljarða íslenskra króna, á fyrri helmingi ársins. Eik Banki er færeyskur banki, skráður í kauphöllina hér og í Kaupmannahöfn og með starfsemi í Danmörku auk Færeyja. Það voru einmitt auknar afskriftir útlána í Danmörku sem settu mark sitt á afkomu bakans að þessu sinni, auk verri afkomu af kjarnastarfsemi, að því er segir í afkomutilkynningu.

Eik Banki gerir ráð fyrir að tapa 25-75 milljónum danskra króna á árinu í heild.

Marner Jacobsen, forstjóri bankans, segir í tilkynningu að það sé ekkert ánægjuefni að kynna tap af rekstri bankans. Þetta komi þó ekki á óvart í ljósi hræringa í alþjóðahagkerfinu og óvissu um framhaldið. Þó séu vísbendingar um að kreppan hafi náð botni og að útlitið fari batnandi. Með hliðsjón af því geri bankinn ráð fyrir hagnaði á næsta ári.

Í tilkynningunni segir að eiginfjárhlutfallið sé gott og lausafjárstaðan sömuleiðis. Eiginfjárhlutfallið um mitt ár var 11,6% en var 13,1% ári fyrr. Lausafjárstaðan var á sama tíma 5,5 milljarðar danskra króna og hafði aukist um 1,5 milljarða á einu ári.