Eik Banki í Færeyjum, sem skráður er í Kauphöllina hér á landi, tapaði 314 milljónum danskra króna í fyrra. Þetta er fyrsta tap bankans í að minnsta kosti fimm ár samkvæmt yfirliti í ársskýrslu, en til samanburðar má nefna að bankinn skilaði 393 milljóna króna hagnaði árið 2007.

Tap vegna Spron

Bankinn tapaði miklu á hlutabréfum, meðal annars á hlutabréfaeign í Spron. Eik seldi bréf sín í Spron í október í fyrra. Lækkun á verði verðbréfa dró afkomu fyrir skatta niður um 246 milljónir, en árið 2007 hafði þessi þáttur jákvæð áhrif á afkomuna upp á 192 milljónir.

Umsvif Eik Banka jukust á árinu. Vaxtatekjur jukust úr 915 milljónum árið 2007 í 1381 milljón í fyrra. Þóknanatekjur jukust um 46 milljónir í 266 milljónir.

Heildareignir bankans voru nánast óbreyttar á milli ára, 22 milljarðar danskra króna, en eiginfjárhlutfall lækkaði úr 12% í 10,6%.

Erfitt ár framundan

Í afkomutilkynningu Eik Banka segir að árið í ár verði án efa erfitt í fjármálageiranum. Bankinn spáir lægri hagnaði fyrir endurmat eigna og skatta í ár en í fyrra, eða 350 milljónir í stað 384 milljóna.

Sterk staða til vaxtar

Þrátt fyrir erfiðleika er í tilkynningunni haft eftir Marner Jacobsen, forstjóra bankans, að bankinn sé á heildina litið í sterkri stöðu til að mæta erfiðleikunum sem framundan séu eða áföllum sem kunni að verða vegna fjármálakrísunnar. Ætlunin sé að halda áfram með þá stefnu sem fylgt hafi verið þrátt fyrir tímabundnar erfiðar aðstæður á mörkuðum. Bankinn hefur verið í töluverðri útrás, aðallega til Danmerkur, og rekur meðal annars stærsta netbankann þar í landi.