Hagnaður Eikar fasteignafélags hf. nam 407 m.kr. króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2014. Rekstrarhagnaður félagsins  fyrir matsbreytingu og afskriftir var 719 m.kr. á tímabilinu og jókst um 5% frá sama tímabili ársins 2013. Einskiptiskostnaður vegna fjárfestinga félagsins var nokkuð hár á tímabilinu og án hans jókst rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir um 9%. Rekstrartekjur félagsins námu 1.054 m.kr. og jukust um 8% frá fyrra ári.

Heildareignir Eikar námu 40.039 m.kr. í lok júní 2014. Fjárfestingareignir félagsins voru metnar á 38.480 m.kr. í lok tímabilsins, en á fyrri árshelmingi ársins 2014 var matsbreyting fjárfestingareigna neikvæð um 150 m.kr. Eigið fé Eikar nam 8.715 m.kr. í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall var 22%.

Aðalástæður neikvæðrar matsbreytingar má rekja til hækkunar fasteignamats sem leiðir til hækkunar áætlaðra opinberra gjalda. Samkvæmt nýju fasteignamati mun fasteignamat samstæðu Eikar (með Landfestum) hækka um 20% árið 2015, sem mun leiða til 17% hækkunar áætlaðra opinberra gjalda. Við mat á virði fjárfestingareigna félagsins var hækkun fasteignagjalda að fullu tekin til greina í sjóðstreymismati á fjárfestingareignum félagsins.

Breytingar á rekstri félagsins á árinu 2014

Rekstur félagsins breyttist mjög mikið á fyrri árshelmingi ársins 2014 og mun breytast enn meira á síðari árshelmingi . Samkeppniseftirlitið samþykkti kaup Eikar á öllu hlutafé Landfesta ehf. í lok júní 2014. Með samþykkinu kláraðist endanlega samruni þriggja eignasafna, þ.e. Eikar, EF1 hf. og Landfesta ehf.

Við sameiningu þessara þriggja eignasafna, þ.e. Eikar, EF1 hf. og Landfesta ehf., verður til annað stærsta fasteignafélag landsins með heildareignasafn um 62 ma.kr., yfir 271 þúsund fermetra í útleigu, yfir 100 fasteignir og yfir 430 leigutaka.

Eignasafn EF1 hf. samanstendur af 5 eignum sem eru alls um 60 þúsund fermetrar. Eignir EF1 hf. eru meðal annars Turninn að Smáratorgi 3, Smáratorg 1 og verslunarmiðstöðin Glerártorg á Akureyri. Eignasafn Landfesta ehf. samanstendur af 35 eignum sem eru alls um 98 þúsund fermetra. Helstu eignir Landfesta ehf. eru Borgartún 21, 21a og 26, Álfheimar 74 (Nýi Glæsibær) og Ármúli 3 og 25-27.