Rekstrarhagnaður félagsins var rúmlega 1.9 milljarður króna og jókst um 36,9 prósent frá árinu 2011. Leigutekjur Eikar námu tæplega 1.8 milljarði króna og jukust um 4,3 prósent frá fyrra ári.

Hagnaður Eikar fasteignafélags hf. nam 451 milljón króna á árinu 2012, en árið 2011 nam hagnaður félagsins tæpum tíu milljónum. Að teknu tilliti til hlutafjáraukningar á árinu nam arðsemi eiginfjár 9,1%. Eigið fé Eikar fasteignafélags í lok árs nam 6,5 milljörðum króna.

Leigutekjur félagsins jukust einnig töluvert á árinu námu tæpum 1,8 milljarði króna. Að frádregnum rekstrarkostnaði fjárfestingaeigna upp á 353 milljónir króna námu hreinar leigutekjur félagsins tæpum 1,5 milljarði króna á nýliðnu ári.

Rekstrarhagnaður Eikar jókst verulega á árinu 2012, eða um 36,9 prósent frá fyrra ári og nam 1,9 milljarði króna á umræddu 12 mánaða tímabili eins og áður segir. Hvað rekstrarhagnaðinn varðar segir í tilkynningu að rétt sé að geta þess að matsbreyting fjárfestingaeigna á árinu nam 595 milljónum króna á árinu og skýrist að meginstefnu til af því að leigutekjur félagsins jukust frá fyrra ári.

Eignir félagsins jukust á milli ára og námu tæpum 21 milljarði króna við árslok síðasta árs og höfðu þá aukist um 5,3 prósent frá 31. desember 2011. Skuldir Eikar námu í árslok 2012 14,5 milljörðum króna og þar af námu vaxtaberandi lán 13,5 milljörðum króna.

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði út arður að fjárhæð 130 milljónir króna á árinu 2013, eða sem nemur um 2% af eigin fé.