Á aðalfundi Eikar fasteignafélags var samþykkt tillaga stjórnar félagsins að hluthöfum yrði greiddur út arður að fjárhæð 130 milljónir króna. Þá var einnig samþykkt að veita stjórn heimild til hækkunar hlutafjár til að mæta markmiðum um stækkun félagsins. Heimildin nær til allt að tveggja milljarða króna hækkunar eiginfjár í skiptri áskrift.

Hagnaður Eikar fasteignafélags hf. nam 451 milljón króna á árinu 2012, en árið 2011 nam hagnaður félagsins tæpum tíu milljónum. Að teknu tilliti til hlutafjáraukningar í fyrra nam arðsemi eiginfjár 9,1%. Eigið fé Eikar fasteignafélags í lok árs nam 6,5 milljörðum króna.

Rekstrarhagnaður félagsins var rúmlega 1.9 milljarður króna og jókst um 36,9 prósent frá árinu 2011. Leigutekjur Eikar námu tæplega 1.8 milljarði króna og jukust um 4,3 prósent frá fyrra ári. Stærstu eigendur Eikar eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Almenni lífeyrissjóðurinn og Lífeyrissjóður verkfræðinga.