*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Innlent 15. apríl 2020 16:38

Eik hækkar mest í mestri veltu

Fasteignafélög hækka mest í kauphöllinni í dag, eða á bilinu 4 til 5 prósent, en Síminn hækkar um nærri 3%.

Ritstjórn

Fasteignafélögin Eik og Reitir hækkuðu mest í kauphöllinni í dag, en næst á eftir þeim kom hækkun Símans, í öllum tilfellum nam hækkun félaganna meira en 3%.

Hækkun Eikar nam 4,89%, upp í 7,29 krónur, í langmestu viðskiptum dagsins, eða fyrir 325,8 milljónir króna. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær nam hækkun Eikar þá 4,51%, í mun minni viðskiptum þó eða fyrir 46 milljónir króna.

Heildarviðskiptin á hlutabréfamarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi í dag nam hins vegar 1,2 milljörðum króna, og hækkaði Úrvalsvísitalan um 1,02%, upp í 1.842,05 krónur.

Hækkun Reita nam 3,83%, í 80 milljóna króna viðskiptum, og nam lokagengi bréfa fasteignafélagsins 56,90 krónum. Þriðja fasteignafélagið, Reginn, sem hækkaði um nærri 4% í gær, hækkaði í dag um 1,69%, í 66 milljóna viðskiptum og endaði í 18,10 krónum.

Þriðja mesta hækkunin í kauphöllinni í dag var á bréfum Símans, en þau hækkuðu um 3,02%, upp í 5,46 krónur, í þriðju mestu viðskiptum dagsins, eða fyrir 124,3 milljónir króna. Næst mestu viðskiptin voru með bréf Marel, eða fyrir 141,5 milljónir króna, en gengi bréfa félagsins hækkuðu um 0,84%, upp í 598 krónur.

Bréf Eimskipafélags Íslands lækkuðu hins vegar mest í dag, eða um 2,29%, niður í 128 krónur, í litlum viðskiptum þó eða fyrir 8 milljónir króna. Næst mest lækkun var á gengi bréfa Icelandair, eða um 0,91%, niður í 3,27 krónur, en viðskiptin með bréf flugfélagsins námu 19 milljónum króna.

Þriðja mesta lækkunin var svo með bréf Origo, eða fyrir 0,43%, í 37 milljóna króna viðskiptum og nam lokagengi bréfa félagsins, 22,90 krónum.

Markaðsvísitala Gamma í ríflega 4 milljarða viðskiptum

Hlutabréfavísitala Gamma hækkaði nokkru meira en Úrvalsvísitalan, eða um 1,27%, upp í 455,189 stig, en veltan á bakvið hana nam rétt tæplega 1,1 milljarði króna.

Markaðsvísitala Gamma hækkaði hins vegar um 0,50, í tæplega 4,3 milljarða viðskiptum og endaði hún í 193,732 stigum, en Skuldabréfavísitala Gamma hækkaði um 0,05%, upp í 407,170 stig, í tæplega 2,5 milljarða viðskiptum.