Eik fasteignafélag hagnaðist um 2,3 milljarða króna á fyrri helmingi yfirstandandi árs. Þetta kemur fram í nýbirtri árshlutaskýrslu félagsins. Rekstrartekjur tímabilsins námu 4,2 milljörðum króna en þar af voru leigutekjur 3,8 milljarðar króna.

Rekstrarkostnaður nam 1,5 milljörðum króna og matsbreyting fjárfestingareigna var 2,5 milljarðar. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, söluhagnað og afskriftir nam 2,7 milljörðum króna og jókst um 8,3% á milli ára. Eiginfjárhlutfall nam 31,4% í lok tímabilsins.

Virðisútleiguhlutfall félagsins hækkaði um 1% frá áramótum og var 93% í lok fyrri hluta ársins. NOI hlutfall (þ.e. rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir sem hlutfall af leigutekjum) nam 71,4% á fyrstu sex mánuðum ársins 2021 samanborið við 67,7% fyrir sama tímabil 2020.

Félagið birti uppfærðar horfur þann 10. ágúst síðastliðinn og er aðlöguð EBITDA afkomuspá fyrir árið 2021 nú á bilinu 5,4 til 5,7 milljarðar króna miðað við verðlag frá júlí 2021.

Í árshlutaskýrslunni segir að áhrif COVID-19 á rekstur félagsins séu enn sýnileg. „Félagið áætlar að bein áhrif COVID-19 hafi verið á bilinu 150-160 m.kr. á fyrstu sex mánuðum ársins og má rekja þau fyrst og fremst til ferðaþjónustufyrirtækja. Áhrifin sjást vel í virðisrýrnun viðskiptakrafna og á rekstri Hótels 1919. Líkur eru á því að faraldurinn muni hafa áhrif á rekstur félagsins næstu misserin, en óljóst er til hve langs tíma.“