Fasteignafélagið Eik hagnaðist um 4,6 milljarða króna á síðasta ári og meira en þrefaldaði hagnað sinn frá árinu 2014 en þá nam hann 1,4 milljarði króna. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 4,17 milljörðum króna en rekstratekjur félagsins námu 5,9 milljörðum króna.

Heildarfasteignasafn Eikar fasteignafélags samanstendur af 106 eignum í alls 276 þúsund útleigufermetrum og um 88% fasteignanna er á höfuðborgarsvæðinu. Vátryggingaverðmæti fasteignasafnsins nam 57.196 m.kr. og bókfært virði fjárfestingareigna samstæðunnar nam 67.625 m.kr., þ.e. áætlað gangvirði.  Virðisútleiguhlutfall samstæðu Eikar í lok árs 2015 var 93,8% samanborið við 91,6% í lok árs 2014. Ef tekið er tillit til eigna í þróun þá var virðisútleiguhlutfallið 95,2% í lok árs 2015 samanborið við 93,0% í lok árs 2014.

Í tilkynningu sem félagið sendi til Kauphallarinnar til tengslum við uppjgörið segir Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri félagsins að reksturinn hafi gengið vel á árinu. „Ánægjulegt var að sjá hve vel gekk að auka virðisútleiguhlutfallið en það hækkaði um 2,2% á árinu,“ segir hann. „Mikil eftirspurn var á síðari hluta ársins eftir húsnæði í helstu viðskiptakjörnum höfuðborgarsvæðisins en 91% af fast-eignum félagsins eru staðsettar á því svæði."