Heildarhagnaður Eikar nam 4.935 milljónum króna á síðasta ári en til samanburðar nam hagnaður fasteignafélagsins 720 milljónum árið 2020. Munurinn á milli ára skýrist að mestu leyti af matsbreyting fjárfestingareigna sem námu 5.215 milljónum en voru 519 milljónir árið áður.

Rekstrarhagnaður Eikar fyrir matsbreytingu og afskriftir (EBITDA) nam 5.645 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 5.038 milljónir árið 2020 og 5.562 milljónir árið 2019. Í tilkynningu Eikar til Kauphallarinnar kemur fram að drög að uppgjöri séu í takt við áætlanir félagsins.

Tekjur fasteignafélagsins námu 8.673 milljónum á síðasta ári sem er um 4% aukning frá fyrra ári en lítil breyting frá árinu 2019 þegar tekjur Eikar voru 8.656 milljónir. Söluhagnaður fjárfestingareigna var 88 milljónir.

Þá var handbært fé frá rekstri 3.492 milljónir króna samkvæmt drögum að uppgjöri en bent er á að arðgreiðslustefna stjórnar gerir ráð fyrir því að allt að 50% af handbæru fé frá rekstri verði greitt í arð til hluthafa.

Eik tekur fram að framangreindar upplýsingar geti tekið breytingum fram að birtingardegi ársuppgjörsins þann 17. febrúar.