Eik fasteignafélag skilaði 8 milljarða króna hagnaði árið 2022, samanborið við 4,9 milljarða hagnað árið áður, samkvæmt stjórnendauppgjöri.

Leigutekjur félagsins jukust um 11% og námu 8,6 milljörðum. Rekstrartekjur jukust alls um 16% og námu 10,1 milljarði. Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir nam 6,6 milljörðum samanborið við 5,6 milljarða árið 2021.

Matsbreyting fjárfestingareigna nam 10,4 milljörðum samanborið við 5,2 milljarða árið áður. Rekstrarhagnaður Eikar jókst úr 10,8 í 17,3 milljarða á milli ára. Fjármagnsgjöld fasteignafélagsins jukust einnig um meira en helming á milli ára og námu 7,3 milljörðum.

Eignir Eikar voru bókfærðar á 128,7 milljarða í árslok 2022 og eigið fé var um 43,7 milljarðar. Eiginfjárhlutfall var því um 34%.

Eik spáir því að rekstrartekjur félagsins verði á bilinu 10.350-10.570 milljónir á árinu 2023 á föstu verðlagi miðað við vísitölu neysluverðs í janúar. Þá áætlar félagið að EBITDA ársins verði á bilinu 6.690-6.970 milljónir.