Árshlutauppgjör Eikar fasteignafélags hf. fyrir fyrsta ársfjórðung 2015 hefur verið birt. Samkvæmt uppgjörinu námu rekstrartekjur félagsins 1.429 milljónum króna á tímabilinu. Heildarhagnaður nam 879 milljónum króna. Árangurinn er í samræmi við áætlanir stjórnenda, að því er segir í tilkynningu frá félaginu.

„Rekstrartekjur félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins 2015 námu 1.429 m.kr., þar af voru leigutekjur 1.338 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 993 m.kr. NOI hlutfall, þ.e. rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, afskriftir og einskiptisliði sem hlutfall af leigutekjum, nam 75,6% samanborið við 77,5% árið 2014. Einskiptiskostnaður vegna skráningar hlutafjár félagsins á markað nam 18 m.kr. á tímabilinu. Að auki mun töluverður einskiptiskostnaður falla til á öðrum ársfjórðungi vegna framangreindrar skráningar. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 1.099 m.kr. og hagnaður tímabilsins nam 879 m.kr," segir í tilkynningu frá Eik.

Eiga 273.000 fermetra af atvinnuhúsnæði

Þá kemur einnig fram að heildareignir félagsins námu 65.520 m.kr. þann 31. mars 2015, þarf af námu fjárfestingareignir 62.852 m.kr. Eigið fé félagsins nam 20.368 m.kr. í lok fyrsta ársfjórðungs og var eiginfjárhlutfall 31%. Heildarskuldir félagsins námu 45.153 m.kr. þann 31. mars 2015, þar af voru vaxtaberandi skuldir 41.536 m.kr. og tekjuskattsskuldbinding 2.776 m.kr.

„Virðisútleiguhlutfall samstæðu Eikar í lok mars 2015 var 91,6% sem er óbreytt frá lok árs 2014. Ef tekið er tillit til eigna í þróun þá var virðisútleiguhlutfallið 92,6% í lok mars 2015 samanborið við 93,0% í lok árs 2014," segir í tilkynningu.

Eik á um 273.000 fermetra af atvinnuhúsnæði. Þar á meðal eru til að mynda Turninn í Kópavogi, Borgartún 21 og 26 og aðrar eignir.