Fasteignafélagið Eik hagnaðist um 1,24 milljarð króna á fyrsta ársfjórðungi 2016. Þetta kemur fram í ársfjórðungsreikningi félagsins sem birtur var í dag.

Rekstrartekjur félagsins námu þá 1,47 milljarði króna og rekstrarhagnaður nam einum milljarði króna. Leigutekjur námu þá 1,3 milljarði króna. NOI hlutfall nam þá 74,2% á fyrstu þremur mánuðum ársins sem er 1,4 prósentustigs lækkun frá árinu áður, þegar það var 75,6%.

Heildareignir félagsins námu 71,5 milljarði króna á fjórsðungnum en þar af var eigið fé félagsins 24,7 milljarðar og heildarskuldir 46,7 milljarðar króna. Það gefur eiginfjárhlutfall upp á 34,6%. Af skuldum voru vaxtaberandi skuldir 41,8 milljarður króna og tekjuskattsskuldbinding 4 milljarðar króna.

Breytingar á gangvirði eigna Eikar á tímabilinu námu um milljarði króna. Fjöldi eigna Eikar er yfir 100 talsins. Samtals eru þær meira en 282 þúsund fermetrar sem eru til útleigu. Virði þessara fjárfestingareigna er rúmir 72 milljarðar króna og fjöldi leigutaka í viðskiptum hjá félaginu eru fleiri en 400.