Fasteignafélagið Eik hagnaðist um 743 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs samanborið við 804 milljónir á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í nýbirtu árshlutauppgjöri félagsins fyrir þriðja ársfjórðung.

Rekstrartekjur félagsins á fjórðungnum námu rétt rúmum 2 milljörðum króna en þar af voru leigutekjurnar 1,7 milljarðar. Rekstarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir námu rétt tæpum 1,4 milljörðum króna á fjórðungnum.

Heildarhagnaður fyrstu níu mánuði ársins nam rétt um 1,7 milljörðum króna en rekstrartekjur tímabilsins námu rétt rúmum 6 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall tímabilsins nam 31,4%.

Eignasafn félagsins

Eik fasteignafélag sinnir rekstri og útleigu á atvinnuhúsnæði. Fjöldi eigna félagsins er yfir 100 og telja þær samtals yfir 300 þúsund útleigufermetra. Virði fasteigna félagsins er rúmlega 91 milljarðar króna. og heildarfjöldi leigutaka er yfir 450.

Helstu fasteignir félagsins á höfuðborgarsvæðinu eru Borgartún 21 og 21a, Borgartún 26, Suðurlandsbraut 8, Mýrargata 2-16, Pósthússtræti 2 (Hótel 1919), Smáratorg 3 (Turninn), Smáratorg 1, Álfheimar 74 (Nýi Glæsibær) og Austurstræti 5, 6, 7 og 17. Helsta fasteign félagsins utan höfuðborgarsvæðisins er Glerártorg.

Stærstu leigutakar eru Húsasmiðjan, Flugleiðahótel, Fasteignir ríkissjóðs, Rúmfatalagerinn, Landsbankinn, Síminn, Sýn, Míla, Deloitte og Vátryggingafélag Íslands.

Stærsti hluti fasteignasafns Eikar er skrifstofuhúsnæði eða 43%. Næst kemur verslunarhúsnæði 25%, hótel 13%, lagerhúsnæði 12% og veitingahúsnæði 4%. Um 90% fasteigna félagsins eru á höfuðborgarsvæðinu, þar af 36% á fjármála- og viðskiptasvæði Reykjavíkur (aðallega innan póstnúmera 105 og 108) og 22% í miðbæ Reykjavíkur. Alls er 9% eignasafnsins á landsbyggðinni, þar af 8% á Akureyri.