Hagnaður fasteignafélagsins Eik nam 937 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi sem er margfaldur viðsnúningur frá sama tíma fyrir ári þegar félagið tapaði 149 milljónum króna. Rekstrartekjurnar jukust um 8,6% milli ára, úr 1.986 milljónum króna í 2.156 milljónir króna, meðan rekstrarkostnaðurinn jókst um 13,4%, úr 686 milljónum króna í 778 milljónir.

Að teknu tilliti til matsbreytingar fjárfestingareigna, sem var neikvæð um 473 milljónir fyrir ári en nú jákvæð um 975 milljónir nærri þrefaldaðist Rekstrarhagnaður (EBIT) félagsins milli ára, úr 802 milljónum króna í 2.324 milljónir króna. Hrein fjármagnsgjöld félagsins jukust milli ára um 16,8%, úr 987 milljónum króna í 1.153 milljónir króna.

Helmingi meiri hagnaður á fyrri hluta árs

Ef horft er til fyrri helmings ársins alls nam hagnaðurinn nærri 1.496 milljónum króna sem er ríflega helmings aukning frá árinu 2018 þegar hann nam 954 milljónum króna.

Rekstrartekjurnar á á fyrri helmingi ársins jukust um 7,8%, úr 3.932 milljónum í 4.240 milljónir króna, meðan rekstrarkostnaðurinn jókst um 11,7%, úr 1.397 milljónum króna í 1.560 milljónir króna. Leigutekjur námu 3.636 milljónum af rekstrartekjunum.

Eiginfjárhlutfallið lækkar um prósentustig

Það sem af er ári hefur eigið fé félagsins aukist um 271 milljón króna, í 31.169 milljónir meðan skuldirnar hafa aukist um 6,2% eða rúmlega 4 milljarða króna svo heildareignirnar jukust um 4,5% eða 4.339 milljónir króna. Þar með hefur eiginfjárhlutfallið lækkað á fyrri hluta ársins úr 31,9% í 30,8%.

Fjárfestingareignir félagsins námu 94.590 milljónum króna, en þær skiptast í fasteignir í útleigu að fjárhæð 91.595 milljónir króna, leigueignir (nýtingarréttur lóða) 1.947 milljónir króna, fasteignir í þróun 587 milljónir króna, byggingarréttir og lóðir 448 milljónir króna og fyrirframgreidd gatnagerðargjöld að fjárhæð 13 milljónir króna. Eignir til eigin nota námu 3.916 milljónum króna.

Félagið stefnir að því að sameina tvö dótturfélög við Eik fasteignafélag sem og að samrunaferli tveggja dótturfélaga Landfesta er einnig í vinnslu.