*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 29. október 2020 13:56

Eik kaupir húsnæði Hölds í Skeifunni

Geta byggt ríflega 10 þúsund fermetra íbúðahúsnæði á reitnum sem inniheldur húsnæði Elko í Skeifunni.

Ritstjórn
Bílaleiga Akureyrar hefur verið með starfstöðvar sínar í Skeifunni 9 síðan um miðjan 9. áratuginn.
Haraldur Guðjónsson

Bílaleiga Akureyrar og Höldur hafa selt Eik fasteignafélagi höfuðstöðvar sínar í Skeifunni. Reiturinn getur hýst 10 þúsund fermetra íbúðabyggð eða minna atvinnuhúsnæði. Eik fasteignafélag hefur fest kaup á tæplega 2.200 fermetra lagerhúsnæði í eigu Hölds sem rekur Bílaleigu Akureyrar í Skeifunni 9, en húsnæðið er á milli Elko og KFC fyrir staðkunnuga.

Viðskiptablaðið sagði frá því í janúar að Höldur ehf. hefði auglýst fasteignina til sölu, en fasteignamat eignarinnar sem eru tæplega 2.200 fermetrar á tveimur hæðum og situr á ríflega 4.300 fermetra lóð nemur 489 milljónum króna.

Samkvæmt árshlutauppgjöri Eikar í gær, þar sem fram kom að hagnaður félagsins hefði dregist saman um 40% milli ára á þriðja ársfjórðungi, kom fram að félagið hefði gengið frá kaupunum á húsnæðinu á tímabilinu með staðgreiðslu, en jafnframt tryggt sér bankafjármögnun fyrir öllu kaupverðinu svo það hafi ekki áhrif á handbært fé þess.

Ætluðu að flytja í haust

Þar kemur jafnframt fram að Höldur muni leigja eignina fram í mars á næsta ári í það minnsta en í sumar sagði Steingrímur Birgisson framkvæmdastjóri Hölds að félagið myndi flytja í nýtt húsnæði í SKútuvogi 8 á haustmánuðum.

Eik fasteignafélag á fyrir húsnæði Elko þar við hliðina, í Skeifunni 7, en báðar eignirnar eru á sama reitnum samkvæmt nýlegu rammaskipulagi Reykjavíkurborgar um svæðið.

Segir félagið að með kaupunum gefist því tækifæri til að ráðast í deiliskipulagsvinnu fyrir reitinn í heild sinni og þróa hann í kjölfarið, og bindi félagið miklar vonir við mikla möguleika til nýtingar á honum í náinni framtíð.

Áætlað byggingarmagn á þessum lóðum Skeifunnar 7 og 9 samkvæmt rammaskipulagi eru rúmir 10.300 fermetrar fyrir íbúðarbyggð og tæplega 7.300 fyrir atvinnuhúsnæði. Væntanleg starfstöð Hölds á höfuðborgarsvæðinu, Skútuvogur 8, hýsir nú heildverslunina Prolong en um tíma hýsti húsnæðið starfsemi Vöku.

Steingrímur sagði á sínum tíma að ástæða sölunnar væri að húsnæðið í Skeifunni væri ekki nægilega stórt fyrir starfsemina, en húsnæðið í í Skútuvogi er rétt um 2.000 fermetrar. Lóðin er hins vegar ríflega 16,5 þúsund fermetrar.