Hlutafjárútboði í Eik fasteignafélagi hf. lauk í gær þann 20. apríl þar sem um 2.100 fjárfestar óskuðu eftir að kaupa hlutabréf fyrir samtals um 8,3 milljarða króna. Í útboðinu bauð Arion banki til sölu 485 milljónir hluta eða samtals 14,0% hlutafjár í félaginu í gegnum tvær tilboðsbækur, A og B. Heildarsöluandvirði útboðsins nemur 3,3 milljörðum króna á genginu 6,80 krónur á hlut. Markaðsvirði hlutafjár Eikar fasteignafélags er 23,6 milljarðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Samtals fengu um 1.200 fjárfestar úthlutað í báðum tilboðsbókum á genginu 6,80 krónur á hlut. Fjárfestum í tilboðsbók A verður úthlutað um 55% af áskrift, en þó þannig að áskriftir verða ekki skertar undir 500 þúsund krónur og lægri fjárhæðir standa óskertar. Áskriftir sem bárust á genginu 6,80 krónur á hlut eða hærra í tilboðsbók B verða óskertar.

„Við þökkum það traust sem fjárfestar sýna félaginu sem fjárfestingarkosti og bjóðum nýja hluthafa velkomna. Eik fasteignafélag hefur vaxið á undanförnum árum með fjárfestingum í vel staðsettum eignum og markar skráning á Aðalmarkað Nasdaq Iceland mikil tímamót fyrir félagið. Það verður spennandi að takast á við ný verkefni með breiðari hópi hluthafa,“ segir Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar fasteignafélags.

Samkvæmt tilkynningu verður fjárfestum sendar upplýsingar um úthlutun ásamt greiðslufyrirmælum eftir að Kauphöll Íslands hefur staðfest að hlutir í Eik fasteignafélagi hf. verði teknir til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Gert er ráð fyrir að eindagi greiðsluseðla vegna útboðsins verði 27. apríl næstkomandi. Fyrirtækjaráðgjöf fjárfestingarbankasviðs Arion banka hefur umsjón með útboðinu og fyrirhugaðri skráningu félagsins í Kauphöll en áætlað er að miðvikudaginn 29. apríl næstkomandi geti viðskipti hafist með hluti í Eik fasteignafélagi á Aðalmarkaði.