Stjórn Eikar fasteignafélags hefur ákveðið að óska eftir að hlutabréf félagsins verði skráð á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Í tilkynningu segir að í aðdraganda skráningarinnar muni fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hafa umsjón með almennu útboði á hlutum í Eik fasteignafélagi hf.

Stefnt er að því að útboðið verði haldið dagana 17. - 20. apríl 2015. Í útboðinu hyggst Arion banki bjóða til sölu allt að 14% eignarhlut sinn í félaginu en frekari upplýsingar um stærð og fyrirkomulag útboðsins verða birtar í lýsingu félagsins.

Eik fasteignafélag sinnir rekstri og útleigu á atvinnuhúsnæði. Fjöldi eigna félagsins er yfir 100 og telja þær samtals um 273 þúsund fermetra. Virði fjárfestingaeigna félagsins er um 62 milljarðar og heildarfjöldi leigutaka er yfir 400.