Eik Properties, móðurfélag Eikar fasteignafélags, tapaði 789,3 milljónum króna árið 2010. Er það þó töluvert betri árangur en árið 2009, þegar tap félagsins nam 1.998,9 milljónum króna. Vaxtagjöld námu 479,2 milljónum króna í fyrra, samanborið við 557,8 milljónir árið áður, en mestu máli skiptir að áhrif dótturfélaga á afkomu félagsins voru mun betri. Áhrifin voru árið 2009 neikvæð um 1,4 milljarða króna, en í fyrra voru þau neikvæð um 310 milljónir. Eignir Eikar Properties voru í árslok 1.639,9 milljónir króna og skuldir námu 3.653,4 milljónum. Eigið fé var því neikvætt um rúma tvo milljarða króna. Eik Properties er að öllu leyti í eigu Íslandsbanka, en félagið var áður í eigu Glitnis og Saxbyggs.