Eik fasteignafélag stefnir á skráningu á markað í apríl. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá félaginu sem hagnaðist um 1.336 milljónir króna. Handbært fé frá rekstri nam 1.562 milljónum krón og bókfært virði fjárfestingareigna nam 62 milljörðum króna í árslok. Matbreyting var neikvæð á árinu um 165 milljónir króna.

Vaxtaberandi skuldir námu 43.559 króna í árslok og eiginfjárhlutfall nam 29,5%.

Í tilkynningu frá félaginu segir: „Á árinu 2014 þrefölduðust umsvif og efnahagur Eikar fasteignafélags og ber að taka tillit til þess í samanburði á milli ára. Í janúar 2014 eignaðist Eik fasteignafélag allt hlutafé EF1 hf. á grundvelli kaupsamnings sem undirritaður var í ágúst 2013. Eik fasteignafélag öðlaðist ekki full yfirráð yfir EF1 hf. fyrr en í lok júní 2014 og er rekstrarhagnaður EF1 hf. því færður sem hlutdeildartekjur á fyrri árshelmingi 2014, en að fullu í samstæðu félagsins á seinni árshelmingi 2014. Undirritaður var kaupsamningur um kaup á Landfestum ehf. í desember 2013. Rekstur og efnahagur samstæðu Landfesta ehf. kom hins vegar ekki inn í samstæðu Eikar fasteignafélags fyrr en frá og með júlí 2014, í kjölfar samþykkis Samkeppniseftirlitsins á kaupum félagsins á Landfestum ehf.“

Stjórn félagsins mun leggja til við aðalfund að greiddur verði út 580 milljónir króna í arð til hluthafa vegna ársins 2014.