*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 25. ágúst 2018 08:50

Eik stofnar 7,8 milljarða framtakssjóð

Markmið sjóðsins er að nýta þær breytingar sem eru að eiga sér stað í verslun á heimsvísu.

Ritstjórn
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar.
Haraldur Guðjónsson

Eik fasteignafélag hefur ásamt alþjóðlegum fjárfestum undirritað áskriftarsamkomulag um stofnun framtakssjóðs til að fjárfesta í lagerhúsnæði í Bretlandi. Áskriftarsamkomulagið, sem undirritað er með tilteknum fyrirvörum, skuldbindur félagið til þess að leggja sjóðnum til allt að 10 milljónir punda, eða sem samsvarar tæplega 1,4 milljörðum króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu. 

Sjóðurinn nefnist NW1 UK Logistics LP og gert er ráð fyrir að eigið fé hans geti numið allt að 55 milljónum punda (tæplega 7,8 milljörðum króna). Stefnt er að því að eiginfjárhlutfall sjóðsins verði að öllu jöfnu á bilinu 40-45%.

Rekstraraðilar sjóðsins eru bresku fjárfestingarfyrirtækin NW1 Partners UK LLP og Marchmont Investment Management sem munu einnig vera meðfjárfestar í sjóðnum. Eik fasteignafélag mun hafa tækifæri til sitja alla fjárfestingaráðsfundi sjóðsins ásamt því að hafa beina aðkomu að tiltknum ákvörðunum um kaup. 

"Við höfum haft fjárfestinguna í Bretlandi til skoðunar um nokkurt skeið. Með þessu fjárfestingarfyrirkomulagi tekur félagið rökrétt og varfærið skref inn á erlenda markaði með sérfræðinga í breskum fasteignamarkaði sér við hlið. Samstarfið gefur félaginu gott tækifæri til tengslamyndunar, stuðlar að aukinni áhættudreifingu á efnahagsreikningi félagsins og býður uppá frekari vöxt á nýjum markaði. Með þátttöku á þessu fjárfestingarformi í stað þess að fjárfesta beint í fasteignum á eigin vegum takmarkar félagið áhættu sína verulega ásamt því að halda stofnkostnaði í lágmarki,“ segir Garðar Hannes Friðjónson, forstjóri Eikar. 

Stikkorð: Eik