Eik Banki styrkir starfsemi sína í Færeyjum með yfirtöku á samtarfssemi Kaupþings í Færeyjum, segir greiningardeild Glitnis.

Eik banki var skráður á hlutabréfamarkað, tvöföld skráning í kauphöllina á Íslandi og í Kaupmannahöfn, fyrr á árinu og er markaðsvirði bankans um fjórir milljarðar króna. Frá skráningu hefur gengið lækkað um 31,56% í kjölfar lausafjárþurrðar á fjármálamörkuðum.

Lánasafn bankans er stærstum hluta danskt eða um 53%, við lok þriðja fjórðungs, 41% er frá Færeyjum komið, 2% frá Svíþjóð, 1% frá Íslandi og önnur lönd telja 3%.

Í fréttatilkynningu segir að starfsemi Kaupþings í Færeyjum, sem hófst árið 2000, hafi einkum snúist um miðlun verðbréfa, eignastýringu, útlán og aðra hefðbundna fjárfestingabankastarfsemi.

„Undanfarin ár hefur starfsemin í Færeyjum gengið vel en þar starfa nú um 30 manns. Eik Banki greiðir fyrir starfsemina með reiðufé og mun yfirtaka innlán Kaupþings í Færeyjum sem og megnið af þeim lánum sem bankinn hefur veitt þar. Áhrif sölunnar á rekstur og efnahag Kaupþings eru óveruleg. Salan er háð venjubundnum fyrirvörum af hálfu kaupanda og seljanda," segir í fréttatilkynningunni.