*

föstudagur, 23. október 2020
Innlent 27. ágúst 2020 18:51

Eik tapar 592 milljónum

Afkoma allra skráðra fasteignafélaganna var lituð af matsbreytingum, Eik er að ráðast í 1.100 milljóna króna verkefni með Össuri.

Alexander Giess
Garðar Hannes Friðjónsson er forstjóri Eikar.
Haraldur Guðjónsson

Fasteignafélagið Eik tapaði 357 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi og hefur tapað 592 milljónum á fyrri hluta árs. Félagið hagnaðist um 1.496 milljónir á sama tímabili fyrra árs. Þetta er meðal þess sem lesa má úr nýbirtu árshlutaskýrslu félagsins.

Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingar og afskriftir námu 1.168 milljónum á öðrum ársfjórðungi og lækkuðu um 15,3% milli ára. Rekstrartekjur drógust saman auk þess sem rekstrarkostnaður jókst, sambærilega sögu er að segja af fyrri hluta ársins.

Skrifað var undir nýjan langtímaleigusamning við Össur. Hluti þess snýr að stækkun hússins um 3.200 fermetra. Áætlaður framkvæmdakostnaður er um 1.100 milljónir króna sem verður fjármagnaður með lánsfé.

Heimsfaraldurinn hafði veruleg áhrif

Matsbreytingar fjárfasteigna voru neikvæðar um 815 milljónir á fyrri hluta árs en þær voru jákvæðar um 1.326 milljónir á sama tímabili fyrir ári. Rekstrarhagnaður nam 1.433 milljónum á fyrri hluta árs og hefur dregist saman um 64% milli ára. Félagið dró á 1.400 milljóna króna bankafjármögnun sem tryggð var í upphafi faraldursins.

NOI hlutfall félagsins nam 67,7% á fyrri hluta ársins en 72,8% á sama tímabili árið 2019. Virðisútileiguhlutfall félagsins hefur lækkað um 1,5% á árinu og var 93,4% í lok annars ársfjórðungs.

Skrifstofur eru 45% af eignasafni félagsins, verslanir 24%, lager og iðnaður 13% og hótel 9%. Félagið telur sem svo að litlar líkur séu á skarpri verðlækkun atvinnuhúsnæðis. 27% af virði fasteigna félagsins er í fjármála- og viðskiptasvæði Reykjavíkur og 18% í miðbæ Reykjavík.

Handbært fé hækkaði um 763 milljónir króna á fyrri hluta árs. Handbært fé frá rekstri var jákvætt um 1.191 milljón, félagið fór í fjárfestingu fyrir 810 milljónir og nam hrein lántaka þess ríflega 500 milljónum. Eiginfjárhlutfall Eikar var 31% í lok annars ársfjórðungs en það var um prósentustigi hærra í upphafi árs.

Félagið keypti eigin hluti að fjárhæð 46,2 milljónir króna á tímabilinu en ætlar ekki að greiða arð árið 2020.

Eignir félagsins námu 103 milljörðum króna í lok annars ársfjórðungs, þar af námu fjárfestingareignir 96 milljörðum. Heildarskuldir námu 71,5 milljörðum króna og eigið fé félagsins nam 32 milljörðum. 

Rafrænn kynningarfundur verður haldinn á morgun, föstudag 28. ágúst klukkan 08:30.