Innan skamms mun koma á markað Íslenskt kristalsjávarsalt sem framleitt er af fyrirtækinu Saltverk Reykjanes við Reykjanes í Ísafjarðardjúpi. Þar með er saltframleiðsla þar endurvakin meira en tveimur öldum eftir að hún var fyrst sett á laggirnar árið 1770.

Eigendur fyrirtækisins eru þeir Garðar Stefánsson, Yngvi Eiríksson og Björn Steinar Jónsson. Sá síðastefndi segir í samtali við Viðskiptablaðið að þeir hafi allir verið í námi í Danmörku síðastliðin ár. „Þar höfum við orðið varir við mikla vakningu á möguleikum norrænnar matvælaframleiðslu sem og mikilvægi uppruna matvæla. Því sama höfum við tekið eftir hér á Íslandi þar sem aukin áhersla á íslensk matvæli er áberandi í veitingahúsaflórunni um land allt,“ segir hann og bætir því við að Yngvi hafi átt hugmyndina að stofnun fyrirtækisins en Yngvi hefur samhliða námi starfað sem kokkur undanfarin 10 ár. „Yngvi bar hugmyndina upp við okkur hina og Garðar gerði hana að meistaraverkefni sínu í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum við Háskólann í Árósum í upphafi ársins. Þá fórum við að vinna í að afla verkefninu fjármagns, sækja um styrki og leita að hentugri staðsetningu,“ segir Björn.

Vinnslan fer þannig fram að jarðhiti er notaður til þess að eima sjó og segir Björn það ferli munu verða nýtt í markaðssetningu vörunnar. „Með því að nota jarðhita í gegnum allt framleiðsluferlið munum við búa til vöru sem er framleidd á eins vistvænan hátt og kostur er. Þessi áhersla á vistvæna framleiðslu með áherslu á uppruna vöru, náttúru Íslands og íslenskri sagnahefð mun skína í gegnum allt sem Saltverk Reykjaness gerir.“

Fyrst um sinn verður að sögn Björns lögð áhersla á innlendan markað en stefnt er að því að markaðssetja saltið í nágrannalöndunum á næsta ári. Stefnt er að því að fyrirtækið vaxi innri vexti og að haldið verði í þau gildi sem lagt var upp með.