Eimskip og Qingdao Port Group hafa undirritað viljayfirlýsingu um rekstur á stærstu kæligeymslu í Kína, sem verður á Qingdao-höfninni, segir í tilkynningu.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni munu aðilarnir tveir í sameiningu byggja upp nútímalega kæligeymslu eftir evrópskum stöðlum. Geymslan mun rúma um 50.000 tonn og verður því stærsta einingakæligeymslan í Kína. Viljayfirlýsingin felur einnig í sér möguleika á stækkun geymslunnar um allt að 50.000 tonn til viðbótar.

?Þetta er mikilvægur liður í þeirri sýn Eimskips að verða leiðandi aðili í hitastýrðum flutningum á heimsvísu en við höfum háleit markmið um nýtingu geymslunnar hvað varðar flutninga milli N-Ameríku og Asíu," segir Baldur Guðnason forstjóri Eimskips í tilkynningunni.

Ákveðið var að reisa kæligeymsluna í Qingdao vegna þess að höfnin er þekkt sem stærsta útflutningsstöð kæliflutningaskipa en hún hefur verið kölluð ?höfn vonarinnar á 21. öldinni? og ?milljón tonna höfnin?.

Qingdao-höfn er þriðja stærsta gámaflutningahöfnin í Kína en á þessu ári er áætlað að um 220 milljón tonn og 8 milljón gámaeiningar (TEUs) fari um höfnina. Fyrstu tíu mánuði þessa árs fóru um 315.000 kæligámaeiningar (reefer TEUs) um höfnina.

Staðsetning kæligeymslunnar felur í sér ótvíræða kosti fyrir flutningsaðila en þetta er fyrsta kæligeymslan sem byggð er á hafnarsvæði Qingdao. Kæligeymslan liggur í um 100 metra fjarlægð frá hafnarsvæðinu og er því ákjósanlegasti kosturinn hvað varðar geymslu hitastýrðra afurða.

Samvinna Eimskips og Qingdao Port Group mun styrkja afgreiðslugetu Qingdao hafnar enn frekar og hraða mjög á vexti hafnarinnar hvað varðar flutninga á hitastýrðum afurðum en talið er að bygging kæligeymslanna og sú þensla sem fylgir í kjölfarið geri höfnina að stærstu dreifingarmiðstöð fyrir frystar og kældar sjávarafurðir í Asíu