Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] hefur lækkað um 0,1% frá því opnað var fyrir viðskipti í Kauphöllinni klukkan 10 í morgun og stendur nú þegar þetta er skrifað, kl. 10:35 í 4.007 stigum.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,5% í gær, hækkaði örlítið við opnun markaða kl. 10 en hefur nú lækkað á ný.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga en eins og sjá má hefur Eimskipafélagið [ HFEIM ] hækkað nokkuð eftir að ljóst var að feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson myndu gangast í ábyrgð fyrir mögulegum skuldum félagsins.

Eimskipafélagið hefur engu að síður lækkað um 25% síðastliðna viku.

Velta með hlutabréf er nú tæplega 970 milljónir. Þar af eru rúmar 440 milljónir með bréf í Landsbankanum [ LAIS ], um 300 milljónir með bréf í Kaupþing [ KAUP ] og um 120 milljónir með bréf í Glitni [ GLB ] en nokkuð minni velta er með bréf í öðrum félögum og engin velta í öðrum.

Krónan hefur veikst um 0,11% í morgun og er gengisvísitalan nú 169,2 stig.