Áfrýjunarnefnd Samkeppnismála hefur ógilt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að synja Eimskipi aðgangi að gögnum sem snúa að þeirri heimild sem lágu til grundvallar húsleit hjá fyrirtækinu og dótturfélögum 10. september í fyrra. Á sama tíma var ráðist í húsleit hjá Samskipum. Stjórnendur Eimskips vildu fá afhent gögnin sem Samkeppniseftirlitið lagði fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og lágu til grundvallar húsleitinni. Því var hins vegar hafnað 13. september í fyrra.

Eimskip áfrýjaði málinu til Áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem hefur úrskurðað í málinu og ógilt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Það leggur nú fyrir Samkeppniseftirlitið að taka á ný afstöðu til beiðni félaganna um aðgang að gögnum.

Fram kemur í tilkynningu frá Eimskipi að í ljósi þessarar niðurstöðu Áfrýjunarnefndar samkeppnismála geri Eimskip ráð fyrir því að fá aðgang að umkröfðum upplýsingum og þar með fá frekari upplýsingar um hvers vegna Samkeppniseftirlitið framkvæmdi húsleit þann 10. september í fyrra.