Eimskip hefur ákveðið að áfrýja dómi í máli félagsins gegn íslenska ríkinu til Landsréttar. Félagið krefst þess að úrskurður yfirskattanefndar í máli þess verði felldur úr gildi og ríkinu gert að endurgreiða opinber gjöld sem af honum hlutust.

„Eimskip sem rekstraraðili kaupskipa í alþjóðlegri samkeppni er ósammála niðurstöðu héraðsdóms og telur því rétt að vísa málinu til næsta dómstigs til úrlausnar,“ segir í tilkynningunni.

Með úrskurði í desember 2017 endurákvarðaði Skatturinn opinber gjöld Eimskips vegna eignarhalds á félögum í Antígva og Barbúda sem stunduðu þurrleigu á skipum. Hækkuðu tekjur um rúman milljarð árið 2014 og um rúmar 387 milljónir króna árið á eftir. Leiddi það til þess að stofn til tekjuskatts fyrra árið varð 97 milljónir í stað yfirfæranlegs 159 milljóna taps og seinna árið féll 285 milljóna yfirfæranlegt tap. Fjórðungsálagi á vantaldan skattstofn var bætt við og nam greiddur skattur ríflega 24 milljónum króna.

Eimskip taldi að félaginu hefði ekki borið að skila CFC-skýrslum þar sem tekjurnar af útleigunni hefðu orðið til í gegnum dótturfélag sitt í Færeyjum. Til vara var þess krafist að tekjur vegna hluta skipanna hefðu verið í atvinnustarfsemi og því hefðu þau félög verið undanskilin CFC-skilum enda upplýsingaskiptasamningur í gildi. Því var einnig hafnað. Úrskurðurinn stóð því.