Eimskip hefur ákveðið að gera breytingar á hinni svokölluðu gráu leið skipafélagsins. Viðkomustöðum fjölgar og eitt skip bætist við línuna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskipi.

Þar segir að gráa leiðin hafi frá febrúar 2014 sinnt þjónustu milli Færeyja og Skotlands en að hún fái nú umfangsmeira hlutverk en áður, þar sem öðru 500 gámaeininga leiguskipi verði bætt við línuna. Við bætast viðkomur í Árósum í Danmörku, Halmstad í Svíþjóð og Swinoujscie í Póllandi.

„Mikil aukning hefur orðið í flutningum til Íslands á undanförnum misserum og gert er ráð fyrir að svo verði áfram. Innflutningsbann í Rússlandi hefur sett mark sitt á flæði vöruflutninga á Norður-Atlantshafi. Með breytingunni á siglingakerfinu er verið að aðlaga það að síbreytilegum þörfum markaðarins. Afkastageta áætlunarskipa félagsins eykst um 6% með breyttu siglingakerfi og bætt er við nýrri viðkomuhöfn í Póllandi. Sveigjanleiki kerfisins eykst til muna og léttir það á kerfinu yfir vetrarmánuðina sem leiðir til aukins áreiðanleika,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Gylfa Sigfússyni, forstjóra Eimskips, að flutningaþarfir taki sífelldum breytingum og að mikilvægt sé fyrir fyrirtækið að geta mætt þeim. Sérstaklega ánægjulegt sé að geta á sama tíma aukið afkastagetu, áreiðanleika og hagkvæmni siglingakerfisins. Gylfi segir mikiilvægt að mæta breyttum þörfum og að skapa grunn að aukinni þjónustu við viðskiptavini.