Eimskipafélag Íslands segir í tilkynningu að það þyki mjög leitt og biðjist afsökunar á því að tvö skipa félagsins hafi endað í endurvinnslu á Indlandi. Segir félagið að þó það telji sig hafa farið eftir lögum við söluferlið hefði mátt gera ríkari kröfur gagnvart kaupandanum um að ef þau færu í endurvinnslu væri það í stöð sem samræmdist stöðlum Evrópu með ákvæðum í sölusamningi.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um fyrir tveim vikum keypti þekktur milliliður við endurvinnslu skipa í skipakirkjugarðinum í Alang á Indlandi skipin tvö, Goðafoss og Laxfoss, en fjallað var um endurvinnslu skipanna í þætti Kveiks á RÚV í síðustu viku.

„Einhugur er meðal stjórnar og stjórnenda Eimskips að draga lærdóm af málinu og aðlaga núverandi samfélags- og umhverfisstefnu til að tryggja að svona atvik, sem samræmist ekki þeim gildum og áherslum sem Eimskip starfar eftir, komi ekki fyrir aftur,“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri.

Eimskipafélagið áréttar þó að starfsemi milliliðarins, GMS, sé ekki eingöngu að kaupa skip til endurvinnslu heldur einnig að leigja þau og selja til áframhaldandi rekstrar líkt og Eimskip gerði sjálft og greiddi 1,3 milljónir dala í leigu fyrir eftir að hafa selt þau á 3,9 milljónir dala.

Félagið viðurkennir þó að meginstarfsemi félagsins sé að vera milliliður fyrir endurvinnslu, þó það segi einnig að „[a]llt frá sölu skipanna í desember 2019 fram á vor 2020 bentu samskipti félagsins við kaupandann, kröfur hans um búnað og ástand skipanna til þess að skipin yrðu í rekstri lengur en raun bar vitni.

Jafnframt segir Eimskip að salan hafi ekki verið til þess gerð að hagnast á hærra söluverði í öðrum heimhlutum, því það hefði verið óverulega hærra en fengist hefði í desember 2019 í endurvinnslustöð í Tyrklandi sem er á evrópskum lista yfir stöðvar sem megi endurvinna evrópsk skip.

Loks segist félagið vera að vinna að því að afla gagna og upplýsinga um málið og muni það í kjölfarið yfirfara verkferla og marki sér skýrari stefnu um stýringu skipaflotans og viðhald hans með tilliti til aldurs og sölu.