Eimskip CTG, norski armur Eimskips, hóf í fyrra tilraunasiglingar frá Nýfundnalandi í Kanada til Rússlands og Evrópu með frysta rækju og loðni. Eftirspurn eftir slíkum flutningum er sérstaklega mikil frá maí og fram í október, að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Skip Eimskip CTG, Polfoss og Langfoss, hafa annað Nýfundnalandssiglingunum en nú er Dalfoss einnig á leið til Kanada til að anna eftirspurn.

Eimskip CTG hefur einnig sótt inn á austurströnd Bandaríkjanna til að sinna flutningum á kjúklingi, svínakjöti og kalkúnakjöti til Litháen, samkvæmt fréttatilkynningu frá Eimskip. Þaðan er farminum dreift með bílum og lestum til Hvíta-Rússlands, Úkraínu og Kasakstan.

Að sögn Gylfa Sigfússonar, forstjóra Eimskips, annar frystiskipafloti Eimskips siglingum frá Nýfundnalandi og austurströnd Bandaríkjanna fyllilega og því gera þær félaginu kleift að nýta skipin enn betur en áður.