*

miðvikudagur, 19. febrúar 2020
Innlent 8. ágúst 2019 16:09

Eimskip eina sem hækkaði í virði

Lítil viðskipti voru í kauphöllinni í dag, og lækkuðu bréf flestra fyrirtækja sem voru í viðskiptum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hefur lækkað um 0,26%, niður í 2.061,81 stig í viðskiptum dagsins.

Námu heildarviðskiptin í kauphöllinni í dag rétt rúmlega 730 milljónum króna, þar af mest með bréf Eimskipafélagsins eða fyrir 139 milljónir króna. Var Eimskip jafnframt eina félagið sem hækkaði í virði í kauphöllinni í dag, eða um 0,27%, upp í 186,0 krónur hvert bréf.

Mest lækkun var á gengi bréfa Heimavalla, eða um 4%, í þó ekki nema 900 þúsund króna viðskiptum, sem jafnframt voru minnstu viðskiptin með ein bréf í dag.  Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hefur félagið brugðið á það ráð að setja upp endurkaupaáætlun, m.a. vegna þess að félagið hefur ekki fengið í gegn afskráninguna sem það stefndi að.

Næst mest lækkun var á gengi bréfa Icelandair, í 70 milljóna króna viðskiptum, en bréfin lækkuðu um 1,35% í 8,05 krónur hvert bréf. Þar á eftir kemur lækkun bréfa Eikar fasteignafélags, eða um 1,48% í jafnframt næst mestu viðskiptum dagsins, eða fyrir 108 milljónir króna, og er lokagengi bréfa félagsins 8,64 krónur.

Pundið á nálægt 150 krónur

Gengi íslensku krónunnar veiktist gagnvart Bandaríkjadal, sem styrktist um 0,29% í dag gagnvart krónunni í 122,19 króna kaupgengi. Einnig styrktist breska sterlingspundið um 0,16% gagnvart krónunni, í 148,27 króna kaupgengi, sem og sænska krónan um 0,61%, sem fæst nú á 12,736 krónur og loks styrktist norska krónan um 0,54% gagnvart krónunni og fæst hún nú á 13,659 krónur.

Japanska jenið, svissneski frankinn og dönsk króna veiktust öll gagnvart þeirri íslensku. Nam veikingin 0,18% hjá japanska jeninu sem fæst nú á 1,1501 krónu, 0,39% hjá frankanum sem fæst á 124,98 krónur og loks 0,01% hjá dönsku krónunni sem fæst á 18,336 krónur.