*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 11. mars 2020 17:12

Eimskip endaði í 11,11% hækkun

Gengi allra félaga nema fjögurra hækkaði í kauphöllinni í dag, og nam hækkun Marel tæplega 5%. Skeljungur og Sjóvá lækkuðu.

Ritstjórn

Gengi bréfa Eimskipafélags Íslands hækkaði um 11,11% í viðskiptum dagsins, sem er ríflega tvöföld hækkun næsta hástökkvara sem var Marel með 4,95% hækkun. Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,51%, í 4,9 milljarða heildarviðskiptum, og fór hún í 1.837,80 stig, eftir stýrivaxtalækkun Seðlabanka Íslands í morgun.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gærkvöldi boðaði Samherji yfirtökutilboð í Eimskipafélagið, þó það jafnframt tæki fram að ekki stæði til að afskrá félagið. Strax í morgun hækkaði Eimskip um 10%, en gengi bréfa félagsins endaði í 150 krónum, eftir 504 milljóna króna viðskipti í dag, sem voru þriðju mestu viðskiptin í dag.

Marel tilkynnti jafnframt um 12,5 milljarða króna endurkaup á eigin bréfum í gærkvöldi, en gengi bréfanna fór í 530 krónur í 774,9 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt voru næstmestu viðskiptin með bréf í einu félagi.

Þriðja mesta hækkunin var svo á gengi bréfa Origo, eða um 2,73%, í mjög litlum, eða 1 milljóna króna viðskiptum og fór gengi bréfa félagsins í 22,60 krónur. Mestu viðskiptin voru hins vegar með bréf Arion banka, eða fyrir 975,1 milljón króna, en gengi bréfa bankans hækkuðu í þeim um 1,16%, upp í 73,85 krónur.

Einungis tvö félög lækkuðu í virði í kauphöllinni í dag, Skeljungur sínu meira en Sjóvá, eða um 0,62%, niður í 8 krónur, í 245 milljóna króna viðskiptum. Lækkun Sjóvá nam 0,31%, í 69 milljóna króna viðskiptum og endaði gengi bréfanna í 16,10 krónum.

Krónan veikist áfram

Gengi krónunnar veiktist svo gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum. Þannig hækkaði gengi evrunnar um 0,55% gagnvart krónunni, og fæst hún nú á 145,22 krónur, Bandaríkjadalurinn styrktist um 0,95% og fór í 128,78 krónug og breska sterlingspundið styrktist gagnvart krónu um 0,46%, í 165,78 krónur.