Eimskip undirritaði í gær samning um áframhaldandi stuðning við rekstur og uppbyggingu Sjóminjasafnsins. Sjóminjasafnið fagnaði um síðustu mánaðamót þriggja ára afmæli sínu. Máttarstólparnir hafa stutt við safnið frá upphafi og með nýjum samningum er handsalaður samningur um rekstrarstuðning til næstu þriggja ára. Stuðningur máttarstólpanna er, eins og gefur að skilja, afar mikilvægur í uppbyggingu Sjóminja­safnsins, sem hefur vaxið verulega fiskur um hrygg síðustu þrjú árin og er framtíð safnsins björt á þessum tímamótum.

Í tilkynningu vegna samningsins segir Guðmundur Davíðsson, forstjóri Eimskips á Íslandi, fyrirtækið vera stoltan bakhjarl Sjóminjasafnsins í Reykjavík, enda sé saga Eimskips samofin sögu siglinga þjóðarinnar frá 1914. “Við erum mjög stolt af rótum félagsins og leggjum áherslu á að hlúa vel að upprunanum. Það er einstaklega ánægjulegt að sjá hversu vel er haldið utan um söguna hér Sjóminjasafninu og hér má meðal annars finna marga af sögufrægum gripum úr sögu Eimskips.”

Óhætt er að segja að fortíð máttarstólpanna tengist mjög þeirri sögu sem Sjóminja­safninu í Reykjavík er ætlað að varðveita og miðla til landsmanna og erlendra gesta. Þannig eru rætur fyrirtækjanna þriggja sýnilegar í núverandi sýningum safnsins; Togarar í hundrað ár og Lífæð lands og borgar – Reykjavíkurhöfn 90 ára. Gullfoss, fyrsta millilandskip Íslendinga sem hingað kom 1915, er stór hluti af sýningu um sögu hafnarinnar, enda var gerð Reykjavíkurhafnar, stofnun Eimskips og togaravæðingin í raun tákngerving „flugtaks” Íslands úr fátækt fyrri alda yfir í tæknivætt ríkidæmi nútíma samfélags. Í árdaga togaraútgerðar var þáttur Íslandsbanka, forvera Glitnis, afar mikilvægur við uppbyggingu veiðiflotans og enn í dag er þjónusta við íslenskan sjávarútveg stór þáttur í starfsemi bankans. Tenging útgerðarfyrirtækisins HB Granda við Sjóminjasafnið er augljós og þar að auki er safnið starfrækt í fyrrum húsnæði Bæjarútgerðar Reykjavíkur sem sameinaðist HB Granda árið 1984. Sögu BÚR eru gerð skil í togarasýningunni, eins og segir í tilkynningunni.