Eimskip hefur gengið frá kaupum á 20% hlut í Kursiu Linija, einu stærsta skipafélagi í Eystrasaltsríkjunum í einkaeigu. Þessi hluti kemur til viðbótar 50% hlut sem Eimskip eignaðist fyrr á árinu og hefur félagið því eignast ráðandi hlut í Kursiu Linija eða 70%.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að heildarkaupverð 70% hluts Eimskips í Kursiu Linija nemur 5 milljónum evra. Eimskip fjármagnar kaupin með eigin fé. Félagið á einnig kauprétt á 30% hlut eftir fjögur ár og yrði þá Kursiu Linija alfarið í eigu Eimskips.

Þar sem Eimskip á nú 70% hlutafjár er Kursiu Linija tekið inn í efnahag og rekstur Eimskips og þar með móðurfélagsins Avion Group. Rekstur Kursiu Linija kemur inn í reikninga Eimskips á fjórða ársfjórðungi eða frá 1. ágúst næstkomandi, en uppgjörstímabil Eimskips er frá 1. nóvember til 31. október.

Kursiu Linija var stofnað árið 1995 af núverandi forstjóra, Arijus Ramonas. Kursiu Linija er með þrjár siglingalínur, milli Eystrasaltsríkjanna og Póllands og Bretlands og Benelux, milli Þýskalands og Kaliningrad í Rússlandi og milli Þýskalands og Litháen og Svíþjóðar. Kursiu Linija er með sex skip í rekstri með flutningsgetu frá 300-650 teus. Árið 2001 var ákveðið að fjárfesta í 45 feta gámum til viðbótar við hefðbundna 20 og 40 feta gáma til styrkja stöðu fyrirtækisins í samkeppni við landflutningafyrirtæki. Kursiu Linija á um 1.500 45 feta gáma, þurrgáma, frystigáma og gardínugáma, þar sem hægt er að draga upp hliðarveggi við lestun og losun. Heildarflutningsgeta gámaflotans er um 5.000 teus.

Um Eimskip

Eimskip býður viðskiptavinum sínum upp á heildarþjónustu í flutningum. Þjónustunet félagsins nær um allan heim, en Eimskip rekur um 88 skrifstofur í Evrópu, N-Ameríku, S-Ameríku og Asíu. Félagið er með 36 skip í rekstri, 400 flutningabíla og yfir 40 kæli- og frystigeymslur.

Avion Group starfrækir 118 starfsstöðvar víðs vegar um heiminn og starfsmenn félagsins eru um 6.500 talsins. Félagið býður viðskiptavinum sínum traustar, hraðvirkar og hagkvæmar lausnir í flutningum, með samhentri starfsemi sem á enga sína líka.